Framleiðslusjúkdómar, þ.e. sjúkdómar tengdir ófullnægjandi aðbúnaði og fóðrun, eru mjög algengir og kostnaðarsamir hér á landi. Sjúkdómarnir sem um ræðir eru m.a. fitulifur, súrdoði, júgurbólga, fastar hildir, legbólgur og ófrjósemi og mynda þeir eins konar sjúkdómahóp kringum burð og fyrst á mjaltaskeiðinu. Sjúkdómarnir eru tengdir hverjir öðrum en segja má að fitulifur og súrdoði séu grunnsjúkdómar þeirra allra. Sýnilegt og dulið tjón af þessum sjúkdómum skiptir hundruðum milljóna árlega.
Oft er spurt hvort að há nyt leiði til aukinnar tíðni framleiðslusjúkdóma. Línurnar hér eru ekki skýrar. Margt bendir til að tíðni júgurbólgu og blaðra á eggjastokkum hækki með aukinni nyt. Ekki er hægt að staðfesta tengsl hárrar nytar og annarra sjúkdóma og er orsaka þeirra frekar að leita í lífeðlisfræðilegu ójafnvægi sem hlýst af ófullnægjandi fóðrun og aðbúnaði og að einhverju leyti erfðum.
Það er einnig reynsla þess sem þetta skrifar að framleiðslusjúkdómar eru sjaldgæfari á þeim búum sem ná hárri nyt enda má segja að það sé forsenda til þess að ná góðum árangri að kýrnar séu heilbrigðar. Óhjákvæmilega er það þó meiri vandi og kallar á meiri gæðastjórnun að fóðra hámjólka kýr.
Gæðastjórnun á kúabúi
Framleiðsluferli mjólkur á kúabúi byrjar á jarðrækt og endar ekki fyrr en mjólkinni hefur verið dælt í mjólkurbílinn. Það eru margir hlekkir í þessari framleiðslukeðju og mikilvægt að gera sér grein fyrir að þetta er raunveruleg keðja, þar sem einstakir þættir spila saman og hafa áhrif hver á annan. Hámarksafurðastefna kallar þess vegna á markvissa stjórnun á öllum þáttum búrekstar og best að bóndinn ásamt sérfræðingum í jarðrækt, búfjárrækt og dýralækningum vinni saman að þessu flókna viðfangsefni.
Heilsugæsla
Nauðsynlegt er að átta sig á því að fyrir hvert sjáanlegt sjúkdómstilfelli eru mörg dulin tilfelli, þ.e. truflun á líkamsstarfsemi sem er þó ekki nægjanleg til að kalla fram sjáanleg einkenni. Við getum líkt þessu við borgarísjaka sem er að 9/10 hlutum neðansjávar og aðeins að 1/10 hluta sjáanlegur.
Almennt er talið að kostnaður vegna dulinna sjúkdóma sé mun meiri á hjarðvísu en nokkurn tíma sjáanleg sjúkdómstilfelli. Markviss heilsugæsla og fyrirbyggjandi aðgerðir eru því mjög ábatasamar fyrir bóndann og ekki hægt annað en að hvetja bændur til að huga að þessum þáttum.
Kýr þurfa að vera í góðu líkamlegu ástandi til að standa undir mikilli framleiðslu. Reglubundin holdastigun er þess vegna liður í markvissri heilsugæslu. Hægt er að gera þetta á einstökum kúm á fyrirfram ákveðnum tímum mjaltaskeiðsins. Önnur aðferð sem einnig hefur gefist vel er að holdastiga allar kýrnar í fjósinu og raða þeim svo eftir tíma frá burði á línurit. Niðurstöður þessara athugana eru bornar saman við viðmiðunargildi og hægt að bregast við á viðeigandi hátt ef settum markmiðum er ekki náð. Mikilvægt er að æskilegum holdum (3,0-3,5) sé náð fyrir geldstöðu og að þeim holdum sé viðhaldið án breytinga fram að burði. Eftir burð leggja kýrnar óhjákvæmilega af. Botninum (2,25-2,75) á að vera náð 8-10 vikum eftir burð og eftir það á kýrin að fara að bæta rólega við sig allt þar til burðarholdum er aftur náð í byrjun geldstöðu.
Geldstaðan er undirbúningstímabil fyrir næsta mjaltaskeið og ber að líta á það sem slíkt. Geldstaða á að vera 6-8 vikur. Þetta er nauðsynlegur tími til endurnýjunar á júgurvefnum. Styttri geldstaða dregur úr afurðum og lengri geldstöðu fylgir meiri hætta á efnaskiptasjúkdómum í byrjun mjaltaskeiðsins. Til að gelda kýr upp er eðlilegast að draga úr fóðrun í nokkra daga og hætta svo mjöltum snögglega.
Athuga þarf júgurheilbrigði í lok mjaltaskeiðsins bæði með því að skoða einstaklingsfrumutölu síðustu mánuði og taka sýni til ræktunar úr þeim kúm sem eru grunsamlegar. Meta þarf í ljósi þessara upplýsinga hvernig meðhöndlun kýrin eigi að fá þegar mjaltaskeiðinu líkur. Gott er að verja heilbrigðar kýr fyrir umhverfissmiti (Step.uberis) t.d. með Orbeseal® í byrjun geldstöðu. Kýr með dulda júgurbólgu og háa frumutölu er eðlilegt að meðhöndla í byrjun geldstöðu með sýklalyfjum. Kýr með langvarandi júgurbólgu svara yfirleitt ekki meðhöndlun og þeim ber að farga.
Að loknum burði er bakkaprófið (CMT prófið) gagnlegt til að meta júgurheilbrigði. Hægt er að nota bakkaprófið á broddmjólkina og eðlilegt er að bóndinn fylgist með heilbrigði mjólkurinnar strax frá fyrsta degi. Ef mjólkin reynist óviðunandi er gott að nýta tímann til meðhöndlunar fyrstu dagana eftir burð áður en hægt er að fara að senda mjólk úr kúnni.
Í geldstöðu gengur líkaminn í gegnum miklar breytingar í efnaskiptum. Tímabil niðurbrots líkamsforða (catabolism) hefst 2-3 vikum fyrir burð. Þessi sveifla efnaskiptanna yfir í niðurbrot er háð hormónabreytingum sem verða fyrir og um burð. Samhliða þessum breytingum minnkar át einnig verulega einkum vegna minnkandi vambarrýmis. Þetta gerist samtímis og fóðurþarfir eru að aukast. Þessar aðstæður leiða til þess að kýrin fer að ganga á líkamsforðann og fita safnast í lifur. Við það verður lifrin vanhæfari til að takast á við aukin umsvif sem tengjast efnaskiptunum í byrjun mjaltaskeiðsins með þeim afleiðingum að hættan á súrdoða eykst.
Fóður ríkt af klór og brennisteini, en snautt af natríum og kalíum, er oft kallað sýrugefandi fóður og dregur úr hættu á bráðadoða. Sýrugefandi fóður leiðir til niðurbrots beina og eykur þar með styrk kalks í blóði. Til að fylgjast með doðahættunni er gagnlegt að skoða sýrustig þvags seinni hluta geldstöðunnar. Þetta er gert með því að dýfa Litmus pappír í þvagsýni. Eftir því sem sýrustig er hærra (pH yfir 7,0) er meiri hætta á doða. Æskileg sýrustig þvags í lok geldstöðu er pH 6-7. Aðrir þættir sem gætu komið að gagni til að draga úr doðahættu eru, m.a. að gefa magnesíum vambarstauta 10-14 dögum fyrir burð, sprauta kýrnar með D-vítamíni og gefa kalsíum inngjöf kringum burð.
Nokkuð er um að legbólga fylgi burðinum og þarf bóndinn að hafa vakandi auga með því hvort hreinsun legsins, sem tekur venjulega viku til tíu daga, sé eðlileg. Legbólga er bakteríusýking í legi og einkennist af illa lyktandi útferð, með eða án hita. Legbólga er algengur fylgikvilli fastra hilda, burðarhjálpar o.fl..
Ljóst er að stöðugt hærra hlutfall kjarnfóðurs í heildarfóðri mjólkukúa í byrjun mjaltaskeiðsins eykur líkurnar á súrri vömb. Sýrustig í vömb getur sveiflast frá pH 5,5-6,8 með æskileg gildi á bilinu pH 6,0-6,3. Til að fyrirbyggja súra vömb er nauðsynlegt að gefa kjarnfóðrið í litlum skömmtum (hámark 2,5 kg í einu) eða, sem er enn betra, að koma sem mestu í heilfóður.
Útlit skítsins gefur gagnlegar upplýsingar um fóðrið og fóðrunina. Skíturinn á að vera álíka þykkur og meðalhafragrautur. Til er kerfi til að gefa skítnum einkunn frá 1 til 5 þar sem 1 er eins og þunn súpa og 5 er eins og velformað hrossatað. Skítur með einkunn 1 eða 2 rennur út og gefur til kynna trénisskort í fóðrinu, ófullnægjandi meltingu í fremri hluta meltingarvegarins og gerjun næringarefna í ristli. Gerjun í ristli veldur lækkun á sýrustigi í skítnum en sýrustig í skítnum á ekki að fara niður fyrir pH 6,0 við eðlilegar aðstæður. Best er að sem flestar mjólkurkýr fái einkunnina 3, þ.e. að skíturinn myndi flata dillu sem er þó það blaut að skíturinn loði vel við stígvél sé tánni stungið í. Kýr í fyrri hluta geldstöðu, sem eiga að fá þurrlegt síðslegið hey, fá einkunnina 4, þ.e. skíturinn myndar háa dillu sem loðir ekki við stígvél. Kýr með doða eða slæman súrdoða eru aftur á móti oft með mjög harðan skít og hljóta einkunnina 5.
Auk þykktar skítsins getur verið gagnlegt að meta kornastærð hans. Almennt eiga stráin ekki að vera lengri en 7 mm og lítið á að greinast af ómeltu korni í skítnum ef jórtrun og vambarstarfsemi eru eðlileg. Litur skítsins fer eftir samsetningu fóðursins og hversu lengi næringarefnin eru að fara eftir meltingarveginum. Kýr á beit eru almennt með grænan skít sem fær á sig gráleitan blæ þegar mikið kjarnfóður er gefið. Í súrdoða gengur meltingin hægt og skíturinn dökknar og fær á sig glansandi áferð. Yfirleitt er ekki hægt að segja að kúaskítur lykti illa nema að um meltingartruflun sé að ræða vegna ójafnvægis í fóðursamsetningu eða vegna sýkinga.
Enn einn þáttur sem gott er að skoða til að meta fóðrun og heilsufar er magn súrdoðaefna í mjólk. Handhæg próf fást til að greina magn þessara efna í mjólk en súrdoðaefnin eru mælikvarði á efnaskiptaástand kýrinnar. Algengast er að sjáanlegur súrdoði verði um þremur vikum eftir burð en hann er að búa um sig í nokkurn tíma áður. Með því að prófa mjólkina tveimur vikum eftir burð er hægt að greina flest tilfelli súrdoða á byrjunarstigi og koma í veg fyrir tjón með því að bregðast rétt við.
Efnasamsetning mjólkurinnar gefur líka ákveðnar vísbendingar um fóðrun og heilbrigði. Úrefni gefur upplýsingar um jafnvægi orku og próteins í fóðrinu. Æskilegt er að úrefni liggi á bilinu 5-6 mmol/l. Lágt hlutfall fitu í mjólk bendir til þess að sýrustig vambarinnar sé lágt og hætta á meltingartruflunum yfirvofandi. Lágt prótein/fitu hlutfall í mjólk (<0.65) gefur til kynna röskun á efnaskiptum lifrarinnar og að súrdoði gæti verið á næsta leyti.
Lögun mjaltakúrfunnar gefur miklar upplýsingar um fóðrun og heilbrigði kúnna. Mjaltaskeiðinu er oft skipt í fjóra hluta:
- Nyt fyrstu 50 dagana eftir burð endurspeglar geldstöðufóðrun, fóðrun um burð og hvernig kýrin tekst á við efnaskiptaálagið sem er óhjákvæmilegt í byrjun mjaltaskeiðsins.
- Nyt 50-100 dögum eftir burð endurspeglar fóðrun í byrjun mjaltaskeiðsins og holdafar. Svörun við aukinni fóðrun er mest þetta tímabil og þess vegna ráðast heildarafurðir mest hér.
- Nyt tímabilið 100-200 dögum eftir burð endurspeglar holdafar og stöðugleika í fóðrun og áti.
- Nyt 200-300 dögum eftir burð endurspeglar fyrst og fremst stöðugleika fóðrunar á þessum tíma. Nyt lækkar auðveldlega með rangri fóðrun, en svörun er jafnframt lítil við aukinni fóðrun.
Hámarksdagsnyt á að nást 35-50 dögum eftir burð. Ef hámarksdagsnyt næst mikið fyrr bendir margt til þess að fóðrun og meðferð í geldstöðu sé ábótavant.
Það er eðli fyrsta kálfs kvígna að halda betur á sér en eldri kýr og almennt má áætla 6% lækkun hjá þeim á mánuði eftir hámarksdagsnyt samanborið við 9% hjá eldri kúm. Ef þessari viðmiðun er ekki náð þarf að huga að orku- og próteinstyrk fóðursins og innbyrðis hlutfalli þessara þátta. Hafa skal þó í huga að kýr á seinni hluta mjaltaskeiðsins svara oftast aukinni kjarnfóðurgjöf með aukinni holdsöfnun frekar en aukinni nyt. Það undirstrikar mikilvægi þess að viðhalda stöðugleika í fóðrun til að nýta framleiðslugetuna allt mjaltaskeiðið.
Íslensku kýrnar eru mjólkurlagnar að eðlisfari líkt og önnur kynbætt mjólkurkúakyn, sem þýðir að mjólkurframleiðslan hefur forgang fyrst á mjaltaskeiðinu.
Baráttan gegn júgurbólgu byggist á mörgum forvarnarþáttum, þ.á.m. góðri mjaltatækni, sótthreinsun spena eftir mjaltir, hreinum og þurrum undirburði, fóðrun sem fullnægir þörfum og greiningu og viðeigandi meðhöndlun sýktra kúa. Enda þótt þessar forvarnaraðgerðir séu víða í hávegum hafðar er júgurbólga enn einn mikilvægasti framleiðslusjúkdómur mjólkurkúa bæði með tilliti til velferðar og fjárhagslegs tjóns sem sjúkdómurinn veldur.