Aðbúnaður og fóðrun hafa mikil áhrif á heilbrigði og veikindatíðni hrossa. Ein mesta áskorunin í dag er að fóðra hrossin í takt við þarfir. Með rúlluvæðingunni upp úr árinu 1980 varð heyöflun mun auðveldari og segja má að ofgnótt verði til af heyjum sem hefur leitt til offóðrunar hrossa mjög víða. Offóðrun er líka algeng á sumrin þegar framboð af grasi er mikið. Offóðrun leiðir til óhóflegrar fitusöfnunar og efnaskiptasjúkdóma. Meltingarkerfi hestsins kallar á jafna fóðrun og hæfilega dagsskammta. Hross sem standa í rúllum eða er beitt á sterkt gras geta ekki annað en safnað fitu.
Efnaskiptasjúkdómar hrossa eru í grunninn ekki ólíkir sjúkdómunum sem herja á nútímamanninn.
Equine Metabolic Syndrome (EMS)
Íslenski hesturinn hefur aðlagast umhverfi og veðurfari á undraverðan hátt. Þegar dagur styttist að hausti og beitargróður fer að sölna fer hesturinn að safna forða til vetrarins. Mikilvægt er að hesturinn fái að eyða þessum forða fyrir vorið til að forðast vítahring offitu með tilheyrandi efnaskiptaröskun. Fituvefur gefur, m.a. frá sér lífvirk efni sem draga úr virkni insúlíns og afleiðingin verður hækkaður styrkur bæði insúlíns og blóðsykurs. Ef um langvarandi ástand er að ræða er hægt að tala um sykursýki af gerð 2.
Helstu einkenni EMS er óhófleg fitusöfnun, ýmist almenn eða staðbundin, sérstaklega í makka. Þá er hófsperra oftast skammt undan og reglulegur fylgifiskur EMS.
Stýring á fóðrun bæði hvað magn og efnasamsetningu varðar, ásamt hóflegri hreyfingu, eru helstu úrræði.
Cushings sjúkdómurinn
Sjúkdómurinn gengur einnig undir heitinu pituitary pars intermedia dysfunction (PPID). Í PPID verður sú breyting á starfsemi heiladinguls að meira er framleitt af ACTH hormóni en eðlilegt er. Helstu einkenni eru aukinn hárvöxtur, sviti, þyngdartap, þorsti og oft hófsperra.
Þetta er algengur sjúkdómur hjá íslenska hestinum og þá einkum hestum eldri en 15 vetra.
Sjúkdómurinn er ólæknanlegur en lyfjameðferð getur dregið úr einkennum.
Hófsperra
Hófsperra, eða laminitis eins og sjúkdómurinn heitir á ensku, er býsna algengur sjúkdómur í íslenska hestinum. Þetta er flókinn sjúkdómur sem getur átt margar orsakir og aðdraganda en einkennin eru oftast svipuð. Í bráðri hófsperru er helti í báðum framfótum áberandi og hesturinn reynir að ganga mest á hælunum. Í sumum tilfellum sýnir hesturinn einkenni í öllum fótum. Hófarnir eru heitir og greina má þenslu og slátt í æðum. Í langvinnri hófsperru eru helstu einkenni afmyndaður hófur, siginn botn og íbjúg framlína hófs.
Hátt sykurinnihald beitar eða heyja er hættulegt hestum. Sem viðmið er almennt talað um að æskilegt sykurinnihald sé undir 100g/kg en samsetning sykursins hefur líka afgerandi áhrif. Frúktanar (forðasykur grasa) eru hættulegastir. Hesturinn er ekki með hvata til að brjóta niður frúktana. Þeir fara því ómeltir aftur í botnlanga og ristil og verða þar fyrir örverugerjun. Ofgnótt framboðs kolvetna aftur í ristil leiðir til lækkunar sýrustigs, ójafnvægis í bakteríuflórunni og slímhúðarskemmda. Þetta leiðir til aukins uppsogs ýmissa skaðlegra efna sem bakteríurnar framleiða og framkalla bólguviðbrögð í hófkvikunni.
Sambærileg sviðsmynd getur komið upp við ýmsar sýkingar, t.d. legbólgu þar sem bakteríur framleiða mikið magn eiturefna sem frásogast inn í líkamann og framkalla bólguviðbrögð í hófkvikunni.
Equine Metabolic Syndrome (EMS) (sjá ofar) sem einkennist af fitusöfnun, ónæmi vefja fyrir insúlíni og háum styrk sykurs í blóði, getur með beinum hætti valdið hófsperru í hestum enda þótt ýmislegt sé óljóst í meingerðinni. Þá er líka ljóst að EMS útsetur hesta fyrir hófsperru af öðrum orskökum.
Cushings sjúkdómurinn (sjá ofar) sem einkennist af offramleiðslu ACTH (adrenocorticotrophin) hefur áhrif á styrk og virkni insúlíns í blóði með þeim hætti að hófsperra getur hlotist af.