Kýrland annast fóðurráðgjöf undir formerkjunum „mætum þörfum, forðumst sóun“.
Fóður er stærsti kostnaðarliðurinn í búrekstri og því er mikilvægt að stunda nákvæmnisfóðrun, þar sem fóðurþörfum er mætt en fóðri ekki sóað að óþörfu.
Uppeldi
Meðalburðaraldur hjá fyrsta kálfs kvígum er um 28 mánuðir. Betra er að kvígur beri yngri eða 22-24 mánaða gamlar, með því sparast fóður, húspláss, umönnum o.fl.. Til þess að kvígur geti borið 22-24 mánaða gamlar þarf þó hver dagur í uppeldi að nýtast markvisst til vaxtar og þroska.
Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að langtímaáhrif fóðrunar fyrstu 8 vikurnar eru umtalsverð. Búast má við því að kvígur sem tvöfalda fæðingarþyngd sína á fyrstu 8 vikunum, en eru að öðru leyti sambærilegar við fyrsta burð, mjólki um 700 kg meira á fyrsta mjaltaskeiði. Enn fremur hefur komið í ljós að ending þessara kvígna er betri.
Mikill breytileiki er í fóðrun og meðferð kálfa og kvígna á Íslandi og víða er vaxtargeta kálfsins vannýtt. Það er einkum ójafnvægi í hlutföllum fóðurefna sem er áberandi. Þetta getur svo leitt til þess að kvígur stækki ekki sem skyldi heldur safni óhóflegum holdum. Óhófleg holdsöfnun er mjög óæskileg, sérstaklega á hinu svokallaða „krítiska tímabili“, á aldrinum 5-15 mánaða, þar sem hún leiðir til fitusöfnunar í júgri
og lægri ævinytar.
Fóðuráætlun miðast við að nýta heimaaflað fóður sem best og koma til móts við fóðurþarfir og vaxtargetu hvers tímabils. Gróffóður er gjarnan of lágt í próteini til að mæta þörfum fyrir vöxt og eðlilegan þroska beina. Þá eru steinefni og vítamín í heimaöfluðu fóðri einnig mjög lág miðað við þörf.
Geldkýr
Fóðrun seinni hluta mjaltaskeiðsins á að miðast við það að ná upp viðunandi burðarholdum áður en í geldstöðuna er komið. Það er tvennt sem vinnst við þetta. Í fyrsta lagi eru efnaskiptin hagkvæmari til holdasöfnunar meðan kýrin mjólkar og í öðru lagi er óæskilegt að kýr safni holdum í geldstöðu. Holdasöfnun í geldstöðu leiðir til fitusöfnunar í lifur og röskunar á eðlilegri starfsemi hennar. Átgeta minnkar og fóðurþarfir aukast síðustu þrjár vikurnar fyrir burð og þá er æskilegt að gefa 1,5-2,0 kg af geldstöðukögglum á dag. Fóðrun í geldstöðu hefur mikil áhrif á afurðir og heilsufar.
Mjólkurkýr
Fóðrun, holdafar og erfðir eru mikilvægustu þættirnir sem stjórna afurðamagni. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir langtímaáhrifum fóðrunar á afurðir og að fóðrun á einu mjaltaskeiði hefur áhrif á afurðir þess næsta. Í fóðrun hefur orku- og próteinstyrkur fóðursins og innbyrðishlutfall orku og próteins mest áhrif. Í byrjun mjaltaskeiðsins er átgeta ekki í samræmi við þarfir og kýrin leggur af. Svarið sem bóndinn hefur er að koma til móts við þarfirnar með því að hækka orkustyrk fóðursins þ.e. að auka hlut kjarnfóðurs á kostnað gróffóðurs. Hár próteinstyrkur í fóðri hvetur til mikilla afurða og að gripurinn gangi enn frekar á eigin forða.
Kjarnfóðurgjöf er á bilinu 20–30 kg fyrir hver 100 kg framleiddrar mjólkur og hámarkskjarnfóðurgjöf er nú víða 12–15 kg á kú á dag. Þessi mikla aukning á orkustyrk fóðursins hefur víðtæk áhrif á efnaskipti kýrinnar og efnasamsetningu afurðanna. Hámarksafurðastefna kallar á meiri nákvæmni við fóðrun. Ef ekki er komið til móts við fóðurþarfir leiðir það til aukins álags á kýrnar og eykur jafnframt hættuna á framleiðslusjúkdómum. Há nyt sem slík eykur ekki hættuna á efnaskiptasjúkdómum enda má segja að heilbrigði sé forsenda mikilla afurða. Það er fyrst og fremst ójafnvægi í fóðursamsetningu og fóðrun sem veldur framleiðslusjúkdómum.
Í fóðri mjólkurkúa er um 60-70% kolvetni (tréni, sterkja og sykur). Afgangurinn samanstendur af próteini, fitu og ösku. Fóðurþarfir fyrir hin ýmsu framleiðsluskeið mjólkurkúa má skilgreina með tilliti til allra þessara þátta. Á einfaldan hátt má segja að fóður fyrir hámjólka kýr þarf að innihalda ákveðið lágmark af tréni, mikið magn auðgerjanlegra kolvetna og skapa aðstæður fyrir jafna gerjun án of mikillar sýrustigslækkunar í vömb (pH>5,7). Kýr í lægri nyt og með minni orkuþarfir geta nýtt fóður með lægri orkustyrk þ.e.a.s. meira tréni.
Tréni hefur neikvæð áhrif á meltanleika fóðurs og þar með fóðurgildi. Tréni er engu að síður nauðsynlegt í fóðri jórturdýra því það myndar “mottu” í vömbinni sem er nauðsynleg fyrir eðlilega meltingu. Vambarmottan örvar jórtrun og framleiðslu munnvatns sem dregur úr lækkun sýrustigs í vömb. Helsti trénisgjafinn í fóðri mjólkurkúa er gróffóðrið. Korn er aftur á móti mjög auðugt af auðgerjanlegum kolvetnum. Vegna mismunandi gerjunareiginleika korntegunda er mikilvægt að ekki sé treyst eingöngu á eina korntegund í fóðri hámjólka kúa. Bygg er í flokki auðgerjanlegra korntegunda ásamt höfrum og hveiti. Maís gerjast aftur á móti hægar og þess vegna er gott að gefa þessar korntegundir saman til að draga úr hættu á meltingartruflunum þegar kjarnfóðurhlutfall er hátt. Einnig má benda á að afurðir sem innihalda pektín (sykurrófumjöl og ýmsar belgjurtir) hafa annað gerjunarmynstur og valda síður súrnun í vömb.
Fóðrunartækni hefur veruleg áhrif á hversu mikið er hægt að gefa af auðgerjanlegum kolvetnum. Heilfóðrun er auðveldasta aðferðin til að tryggja almennt jafnvægi næringarefna í fóðrinu út frá þörfum kýrinnar á hverju stigi framleiðsluferilsins. Hægt er að stilla af hvern efnaþátt fóðursins og þar með nálgast markmið um, t.d. lágmarks trénisinnihald og rétt hlutfall próteins og kolvetna í fóðri hámjólka kúa.