Kýrland annast hönnun fjósa undir formerkjunum „vellíðan og heilbrigði“ þar sem áhersla er lögð á hagkvæmni, gott vinnuumhverfi og velferð gripa.
Í allri umræðu um landbúnað nýtur hugtakið velferð búfjár vaxandi athygli. Forsendur velferðar eru oft listaðar sem góð fóðrun; góður húsakostur; gott heilsufar og eðlilegt atferli. Við mat á velferð hefur jafnan verið gengið út frá umhverfi og aðbúnaði gripanna en nú er æ meir leitast við að meta hvernig umhverfið hefur áhrif á gripina bæði hvað varðar atferli og líkamlegt ástand eða heilsufar þeirra.
Mikilvægt er að tryggja gripum gott rými til að stuðla að góðu og óhindruðu flæði um fjósið. Þrengsli draga úr áti og afurðum. Stærð legubása er líka mjög mikilvæg. Vel hannaðir básar þjóna tvíþættu hlutverki, annars vegar sem notalegt legusvæði og hins vegar eiga þeir að „stjórna“ hvar kýrin skítur. Þessi stýring má þó ekki vera þvingandi og trufla sem minnst náttúrulegt atferli gripanna.
Lengd bása ræður miklu um það hvernig kýrin liggur í básnum. Kýrin þarf mikið rými fyrir utan hið eiginlega legusvæði. Þær þurfa mikið rými til að kasta sér fram þegar þær standa upp og það er líka mikilvægt að kúm stafi ekki ógn af öðrum kúm sem liggja í gagnstæðum básum né að útveggur sé of nálægt. Kýr liggja oftast beinar ef höfuðrými er mikið. Það er ekki þörf að þrengja að kúnum til að þær liggi rétt og mikilvægt að gera sér grein fyrir því að skálega ræðst að litlu leyti af breidd bása. Aukin breidd bása hefur aftur á móti jákvæð áhrif á legutíma kúa. Rannsóknir sýna að kýr nota góða bása um 14 klst á sólarhring, liggja í rúma 11 klst og standa í básunum í um 3 klst.
Þegar fjós eru hönnuð er mikilvægt að loka ekki á framtíðina og taka tillit til þeirra aðstæðna sem við búum við á Íslandi. Flest fjós sem byggð hafa verið síðustu þrjátíu ár hafa tekið mið af hollenskri hönnun. Í Hollandi eru aðstæður gjörólíkar okkar, þar má nefna annað kúakyn, litlar jarðir, og mikið aðkeypt fóður og þjónusta.
Rétt er að hafa í huga að gildandi reglugerðir eru aðeins til viðmiðunar um lágmörk. Íslensku kýrnar hafa farið ört stækkandi og engar líkur eru á að hægist á þeirri þróun. Vonandi ætlum við að framleiða mjólk til frambúðar á Íslandi og því er nauðsynlegt að geta framleitt mjólk í fjósunum sem byggð eru í dag, a.m.k. næstu 50-70 ár.
Aðbúnaði kálfa er víða áfátt. Ungir kálfar þurfa hlýrra umhverfi en mjólkurkýr og þess vegna hentar yfirleitt ekki að hafa þá í sama rými og mjólkandi kýr nema að um sé að ræða einhvers konar sérhönnun.
Nú er algengast að burði sé dreift yfir árið, að meðaltali er því hægt að gera ráð fyrir því að um 20% kúa séu í geldstöðu hverju sinni. Mikilvægastu mánuðir í framleiðsluári kýrinnar eru geldstöðumánuðirnir tveir og fyrsti mánuður mjaltaskeiðsins. Nauðsynlegt er að geldkýrnar séu hafðar í séraðstöðu þar sem hægt er að koma sérstaklega til móts við sérþarfir þessa hóps. Geldkýrnar og nýbærurnar kalla á mesta eftirlitið og þess vegna er æskilegt að þessir hópar séu stutt frá hvorum öðrum og þar sem bóndinn er mest á ferðinni.
Heilfóðrun er mjög áhugaverður kostur við íslenskar aðstæður. Kjarnfóður sem mest er innflutt er mjög dýrt og því áhugavert þar sem aðstæður leyfa að framleiða fjölbreyttara fóður til heilfóðurgerðar. Til að heilfóðrun nýtist sem skyldi þarf að vera hægt að hópaskipta kúnum og blanda fóður sem hentar hverju tímabili á mjaltaskeiðinu.